Indriði fær nýjan þjálfara

Indriði Sigurðsson í baráttu við Cristiano Ronaldo.
Indriði Sigurðsson í baráttu við Cristiano Ronaldo. mbl.is/Golli

Norska liðið Viking frá Stavanger, þar sem Indriði Sigurðsson er fyrirliði, hefur ákveðið að segja upp þjálfaranum Åge Hareide í kjölfarið á slæmum úrslitum að mati forráðamanna félagsins.

Viking hefur unnið 4 af 12 leikjum sínum í norsku úrvalsdeildinni til þessa og er í 10. sæti. Liðið hefur aðeins skorað 9 mörk í deildinni. Þá á félagið í miklum fjárhagserfiðleikum.

Viking stefnir á að vera búið að semja við nýjan þjálfara fyrir leikinn við Rosenborg 30. júní. Kjell Jonevret sem áður lék með Viking og þjálfaði Molde er orðaður við stöðuna.

mbl.is