Alfreð samdi við Heerenveen til þriggja ára

Landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason er orðinn leikmaður hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen en félagið tilkynnir félagaskipti hans á heimasíðu sinni.

Alfreð skrifar undir þriggja ára samning við hollenska félagið með þeim möguleika að bæta við fjórða árinu. 

Alfreð kemur til Heerenveen frá belgíska liðinu Lokeren en hann hefur eytt sumrinu á láni hjá sænsku meisturunum í Helsingborg þar sem Alfreð hefur farið á kostum. 

„Hjá Helsingborg sýndi Alfreð að hann er mikill markaskorari með því að skora tólf mörk í 17 leikjum,“ segir á heimasíðu Heerenveen.

Alfreð verður væntanlega löglegur með Heerenveen fyrir leikinn gegn Feyenoord í hollensku deildinni um helgina.

Þjálfari liðsins er hollenska goðsögnin Marco van Basten sem er einn albesti framherjinn í knattspyrnusögunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina