Hólmar fer á æskuslóðirnar í Stuttgart

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. www.ksvroeselare.be

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson fer á æskuslóðir í kvöld þegar hann heimsækir Stuttgart með liði sínu, Bochum, í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar.

Hólmar bjó í Stuttgart fyrstu æviárin ásamt foreldrum sínum en Eyjólfur Sverrisson, faðir hans, hóf sinn atvinnuferil hjá Stuttgart og lék með félaginu frá 1990, árinu sem Hólmar fæddist, og til 1994.

„Jú, ég átti heima þarna í nokkur ár en man nú ósköp lítið eftir því sjálfur,“ sagði Hólmar við Morgunblaðið í gær. Hann kvaðst reikna frekar með því að vera í byrjunarliðinu í kvöld eins og í síðustu leikjum en það myndi þó ekki skýrast fyrr en í dag.