Ari kvaddi með tveimur aukaspyrnumörkum

Ari Freyr Skúlason í landsleik.
Ari Freyr Skúlason í landsleik. mbl.is/Golli

Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði tvö mörk beint úr aukaspyrnum í kveðjuleik sínum með Sundsvall í dag þegar lið hans gerði jafntefli, 3:3, við GAIS á útivelli í toppslag í sænsku B-deildinni.

Sundsvall lenti 2:0 undir í seinni hálfleik en Ari minnkaði muninn með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 58. mínútu. Gautaborgarliðið komst í 3:1 og allt stefndi í sigur þess. Á 88. mínútu lék Ari sama leik og negldi boltanum í stöng og inn, beint úr aukaspyrnu, 3:2. Í uppbótartímanum náði svo Johan Eklund að jafna metin og Sundsvall náði ævintýralegu jafntefli, 3:3. Jón Guðni Fjóluson var í leikmannahópi Sundsvall í dag en kom ekki við sögu í leiknum.

Ari hefur leikið með Sundsvall í hálft  sjötta ár og verið fyrirliði liðsins undanfarin misseri. Danska úrvalsdeildarfélagið OB hefur fest kaup á honum og hann flytur sig nú yfir til Óðinsvéa í næstu viku.

Hann er annar markahæsti leikmaður Sundsvall í deildinni í ár með 7 mörk í 15 leikjum og jafnaði þar með sitt besta tímabil þó hann léki aðeins hálft í þetta sinn, en Ari skoraði áður 7 mörk fyrir liðið í 27 leikjum árið 2010.

Ari skilur við Sundsvall í þriðja sæti deildarinnar. Falkenberg og Örebro eru með 33 stig í toppsætunum, Sundsvall er með 31 stig og GAIS 28 stig en 16 umferðir af 30 hafa verið leiknar.

mbl.is