Gunnar Heiðar samdi til tveggja ára

Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Norrköping.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Norrköping. Ljósmynd/ifknorrkoping.se

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skrifaði fyrr í dag undir tveggja ára samning við tyrkneska félagið Konyaspor en þetta staðfestir Eyjamaðurinn markheppni í samtali við mbl.is.

Gunnar Heiðar er staddur í Tyrklandi þar sem hann stóðst læknisskoðun hjá liðinu og í framhaldi skrifaði hann undir samning við liðið sem er nýliði í tyrnesku úrvalsdeildinni.

Sænsk blöð halda því fram að Konyaspor borgi 1,5 milljónir sænskra króna fyrir Gunnar Heiðar sem varð næstmarkahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra með 17 mörk en hann er jafnframt næstmarkahæstur í deildinni í ár með níu mörk.

Konyaspor er frá borginni Konya í suðurhluta Tyrklands, og vann sér sæti í tyrknesku úrvalsdeildinni í vor en vann þá umspil eftir að hafa endað í sjötta sæti 1. deildar.

mbl.is