Kristján Finnbogason semur við FH

Kristján Finnbogason fékk á sig eitt mark í leiknum gegn ...
Kristján Finnbogason fékk á sig eitt mark í leiknum gegn Ólsurum í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristján Finnbogason, markvörðurinn reynslumikli, hefur samið við FH um að leika með liðinu á næsta tímabili en þetta staðfestir hann í samtali við fótbolti.net. Mbl.is greindi frá því á dögunum að Kristján væri á leið til Hafnarfjarðarliðsins.

Kristján, sem er 42 ára gamall, verður varamarkvörður Róberts Arnar Óskarssonar en hann kemur til FH frá Fylki og mun hann einnig aðstoða við markmannsþjálfun hjá félaginu.

Þessi gamalreyndi markvörður spilaði einn leik fyrir Fylki í Pepsi-deildinni í sumar en það var hans 268. leikur í efstu deild. Með honum varð Kristján þriðji leikjahæsti leikmaður efstu deildar frá upphafi.

Í viðtali við mbl.is eftir leikinn gegn Ólsurum í sumar fullyrti Kristján að hann væri hættur en hafði þó fyrirvara á.

„Nei, nei, nú lofa ég því að þetta hafi verið síðasti leikurinn minn. En ég hef svo sem sagt það áður!“ sagði Kristján.

mbl.is