Jóhann tryggði sigur AZ í blálokin

Aron Jóhannsson í baráttu við tvo varnarmenn Maccabi Haifa í ...
Aron Jóhannsson í baráttu við tvo varnarmenn Maccabi Haifa í kvöld. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, gulltryggði AZ Alkmaar sigur á Maccabi Haifa frá Ísrael og sæti í 32ja liða úrslitum Evrópudeildar UEFA þegar hann skoraði síðara markið í 2:0 sigri í kvöld.

Leikurinn fór fram í Alkmaar og heimamönnum nægði jafntefli til að komast áfram. Nemanja Gudelj kom þeim yfir á 37. mínútu og Jóhann skoraði laglegt mark í lok uppbótartímans, með skoti rétt utan vítateigs í stöng og inn, 2:0.

Jóhann og Aron Jóhannsson léku allan tímann með hollenska liðinu sem á einn leik eftir í riðlinum og er jafnt PAOK Saloniki á toppnum með 11 stig. Maccabi Haifa og Shakhter Karagandy eru úr leik með 2 stig hvort.

mbl.is