Hólmar hitti forráðamenn Helsingborg

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Ljósmynd/vfl-bochum.de

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson er staddur í Svíþjóð þar sem hann ræddi í dag við forráðamenn úrvalsdeildarfélagsins Helsingborg.

Hólmar staðfesti við mbl.is að hann væri hjá félaginu og hefði hitt forráðamenn þess að máli en sagði jafnframt að fréttir um að hann hefði farið þangað til reynslu væru ekki á rökum reistar.

Hann er laus allra mála frá Bochum í Þýskalandi en þar hefur Hólmar spilað í B-deildinni undanfarin þrjú tímabil. Hann var áður á mála hjá West Ham, sem keypti hann af HK árið 2008, og var þá lánaður til enska liðsins Cheltenham og belgíska liðsins Roeselare.

Hólmar, sem er miðvörður og verður 24 ára í næstu viku, hefur leikið einn A-landsleik fyrir Íslands hönd og 27 leiki með 21-árs landsliðinu, sem er met.

Helsingborg er í 11. sæti af 16 liðum í sænsku úrvalsdeildinni en Arnór Smárason spilar með liðinu. Félagið varð sænskur meistari í fimmta sinn árið 2011 og varð þá líka bikarmeistari í fimmta sinn.

mbl.is