Fróði: Þetta er stærsta stundin

Viljormur Davidsen (3) fagnar sigrinum í Aþenu. Númer 2 er …
Viljormur Davidsen (3) fagnar sigrinum í Aþenu. Númer 2 er Jónas Tór Næs, fyrrverandi leikmaður Vals. AFP

„Þetta er stærsti stund sem ég hef upplifað með landsliðinu,“ sagði Fróði Benjaminsen, fyrirliði færeyska landsliðsins í knattspyrnu og fyrrverandi leikmaður Fram, eftir hinn óvænta sigur Færeyinga á Grikkjum í Aþenu í kvöld.

„Það er stórt að vinna Grikkland á útivelli, og líka hvernig við unnum leikinn. Oftast pökkum við í vörn en í kvöld sköpuðum við okkur mörg marktækifæri," sagði Fróði við Rás 2 í Færeyjum en hann átti sjálfur stangarskot tíu mínútum áður en Jóan Simun Edmundsson skoraði sigurmarkið á 61. mínútu leiksins.

„Ég viðurkenni að ég hugsaði oft um leikinn við Eista á lokamínútunum í kvöld en nú tókst okkur að halda þessu," sagði Fróði og vitnaði til ósigurs gegn Eistlandi þar sem Færeyingar voru marki yfir þegar uppbótartíminn hófst en töpuðu samt.

Fróði jafnaði í kvöld landsleikjamet Óla Johannessens fyrir Færeyjar með því að spila sinn 83. landsleik. Hann getur sett metið í næsta leik sem er gegn Rúmenum á útivelli í mars.

Tveir fyrrverandi leikmenn Vals voru í liði Færeyja í kvöld. Jónas Tór Næs spilaði allan leikinn og Pól Justinussen kom inná sem varamaður á 75. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert