Stórslys ef ég verð ekki forseti

Ali bin al-Hussein, prinsinn frá Jórdaníu.
Ali bin al-Hussein, prinsinn frá Jórdaníu. AFP

Jórdanski prinsinn Ali bin Al-Hussein segir að það verði stórslys fyrir knattspyrnuhreyfinguna í heiminum ef hann ná ekki kjöri sem forseti FIFA þann 26. febrúar en þá verður eftirmaður Sepps Blatters kosinn.

Ali telur að hann sé sá eini af þeim sem hafa boðið sig fram í forsetakjörinu sem geti endurheimt virðingu FIFA í kjölfarið á þeim hneykslismálum sem dunið hafa yfir sambandið á undanförnum mánuðum og árum.

Ali bauð sig fram gegn Blatter á þingi FIFA í maí en beið lægri hlut í kosningunni, 73:133. Blatter tilkynnti hinsvegar í kjölfarið að hann myndi draga sig í hlé og boðað var til nýrra kosninga í febrúar. Rétt fyrir jólin var Blatter síðan úrskurðaður í átta ára bann frá afskiptum af knattspyrnu, rétt eins og Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

Auk Ali hafa þeir Jeróme Champagne frá Frakklandi, Gianni Infantino frá Sviss, Salman bin Ebrahim al-Khalifa frá Barein og Tokyo Sexwale frá Suður-Afríku boðið sig fram í forsetakjörinu.

„Það yrði stórslys fyrir hreyfinguna ef þetta kjör fer ekki á réttan hátt. Ég hef rætt við fulltrúa knattspyrnusambanda um allan heim og þeir átta sig á því að þetta er gífurlega mikilvæg stund sem ræður miklu fyrir framtíð sambandsins. Menn verða að kjósa rétta forsetann sem fær með sér réttan framkvæmdastjóra. Það verður að vera alvöru forysta hjá FIFA og einhver sem tekur ábyrgð, sem er nokkuð sem við höfum ekki séð," sagði Ali við BBC.

Hann hefur rætt mikið við fulltrúa knattspyrnusambandanna á Bretlandseyjum og telur þau vera í lykilhlutverki.

„Ensk knattspyrna nýtur mikillar virðingar og staða hennar í hreyfingunni hefur verið sterk. Það sem skiptir miklu máli er fyrir hvað Englendingar standa í dag. Ég tel að stundum hafi orð Englendinga á alþjóðavettvangi verið rangtúlkuð. England nýtur mikillar virðingar um allan heim og sérstaklega enski fótboltinn," sagði Ali.

Ali hefur m.a. lagt til að reglur um úthlutun heimsmeistaramóts karla verði hertar til muna en nú stendur yfir rannsókn á því hvernig staðið var að því að úthluta Rússlandi HM 2018 og Katar HM 2022.

„Við viljum ekki gera aftur sömu mistökin. Ég tel til dæmis að það sé ekki rétt að meðlimir í framkvæmdastjórn FIFA heimsæki löndin sem sækja um að halda HM," sagði Ali.

mbl.is