Aubameyang leikmaður ársins í Afríku

Pierre-Emerick Aubameyang hefur farið á kostum í vetur.
Pierre-Emerick Aubameyang hefur farið á kostum í vetur. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang, framherji Dortmund í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu, hefur verið valinn besti leikmaður ársins 2015 í Afríku, en þetta var tilkynnt í kvöld.

Aubameyang hefur farið á kostum með Dortmund og í sautján leikjum sínum í deildinni það sem af er hefur hann skorað átján mörk. Alls hefur hann skorað 47 mörk í 82 leikjum fyrir Dortmund, en þangað kom hann árið 2013 eftir að hafa slegið í gegn með Saint-Étienne í Frakklandi.

Aubameyang er 26 ára gamall, landsliðsmaður Gabon og hefur skorað nítján mörk í 45 landsleikjum fyrir þjóð sína. Yaya Touré, leikmaður Manchester City og Fílabeinsstrandarinnar, hafði unnið þennan titil síðustu fjögur árin en í fyrra lenti Aubameyang í öðru sæti.

mbl.is