Traðkaði fólskulega á Messi (myndskeið)

Lionel Messi freistar þess að skora framhjá Pau López sem …
Lionel Messi freistar þess að skora framhjá Pau López sem sýndi mikinn fautaskap í leiknum í gærkvöld. AFP

Það er ekki oft sem argentínski knattspyrnusnillingurinn Lionel Messi fær að líta gula spjaldið en það gerðist í gærkvöld þegar hann skoraði tvö mörk í 4:1-sigri á Espanyol, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum spænska konungsbikarsins.

Þetta var aðeins önnur áminningin sem Messi fær á tímabilinu, en hann hafði fengið gult spjald í einum leik í Meistaradeildinni.

Alls voru tíu áminningar veittar í leiknum í gær, sem þótti ansi grófur, og rauða spjaldið fór tvívegis á loft með skömmu millibili í seinni hálfleik, þegar tveir leikmenn Espanyol voru reknir af velli.

Pau López, markvörður Espanyol, slapp hins vegar með skrekkinn í þessum grannaslag. Hann hafði fengið gult spjald rétt fyrir hálfleik, en fékk svo enga refsingu fyrir það að traðka fólskulega á Messi á 58. mínútu, eftir sókn Börsunga. Atvikið má sjá hér að ofan.

Liðin mætast að nýju á miðvikudaginn í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert