Diego í liði umferðarinnar

Diego Jóhannesson á fréttamannafundi eftir leik.
Diego Jóhannesson á fréttamannafundi eftir leik. Ljósmynd/realoviedo.es

Hinn hálfíslenski Diego Jóhannesson er í liði umferðarinnar í spænsku B-deildinni í knattspyrnu eftir frammistöðu sína með Real Oviedo í toppslag gegn Osasuna um síðustu helgi.

Tímaritið FutMondo velur hann í sitt ellefu manna úrvalslið en viðureign liðanna á sunnudaginn endaði 0:0.

Diego, sem er 22 ára gamall, kom inní liðið þegar nokkrar vikur voru búnar af tímabilinu og hefur vakið nokkra athygli í stöðu hægri bakvarðar. Hann spilaði fyrst með liðinu í C-deildinni síðasta vetur.

Real Oviedo hefur komið talsvert á óvart sem nýliði í B-deildinni og er í baráttunni um að komast í hóp þeirra bestu á Spáni. Alavés og Córdoba eru í tveimur efstu sætunum með 39 stig en Real Oviedo er með 36 stig, Osasuna 35, Leganés og Alcorcón 34 stig þar á eftir. Tvö efstu liðin fara upp og fjögur næstu lið komast í umspil um eitt sæti.

mbl.is