„Sá faglegasti sem ég hef unnið með“

Pep Guardiola.
Pep Guardiola. AFP

Það er ekki Lionel Messi, Andrés Iniesta, Philipp Lahm eða Manuel Neuer sem er faglegasti leikmaðurinn sem Pep Guardiola, þjálfari Bayern München og fyrrverandi þjálfari Barcelona, hefur unnið með. Guardiola segir að það sé pólski framherjinn Robert Lewandowski sem leikur undir hans stjórn hjá þýska meistaraliðinu.

„Lewandowski er faglegasti leikmaðurinn sem ég hef hitt á ferli mínum. Hann hugsar um réttan mat, svefn og æfingar 24 klukkutíma á dag. Hann er alltaf til staðar, er aldrei meiddur vegna þess að hann hugsar um þessa hluti. Hann veit alltaf hvað er mikilvægast til þess að vera í sem bestu standi,“ sagði Guardiola við fréttamenn en sem kunnugt er lætur hann af störfum hjá þýska stórliðinu í sumar og tekur við stjórastarfinu hjá Manchester City.

Pólski markaskorarinn er samningsbundinn Bayern München til ársins 2019 en hann hefur reglulega verið orðaður við lið á borð við Real Madrid og Manchester City. Vangaveltur hafa verið í gangi í ensku pressunni að Lewandowski fylgi Guardiola til Manchester en hann hefur skorað 19 mörk í 19 leikjum í þýsku deildinni á tímabilinu og 29 mörk í öllum mótum. Hann komst heldur betur í heimsfréttirnar í september þegar hann skoraði hvorki meira né minna en fimm mörk á 9 mínútum í leik á móti Wolfsburg eftir að hafa verið skipt inn á í síðari hálfleik.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert