Varð að hætta við á síðustu stundu

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Rosenborg gegn KR í ...
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Rosenborg gegn KR í fyrra. mbl.is/Styrmir Kári

Noregsmeistarar Rosenborg voru aðeins með 17 menn í hópnum í dag þegar þeir sigruðu Strömsgodset, 1:0, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, þar sem Hólmar Örn Eyjólfsson varð að hætta við þátttöku í leiknum.

„Ég tognaði á ökkla á æfingu í gær en við ætluðum að láta á þetta reyna og það stóð til að ég myndi reyna að spila leikinn. Það kom hinsvegar í ljós í dag að ökklinn væri of bólginn og ég varð því að sitja í stúkunni. En þetta er ekkert alvarlegt og ég verð byrjaður að æfa aftur með liðinu á miðvikudaginn," sagði Hólmar við mbl.is í kvöld.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn með Rosenborg, fremstur á miðjunni. Liðið fékk þarna sín fyrstu stig eftir að hafa tapað 1:0 fyrir Odd í fyrstu umferðinni. Þar sem Hólmar varð að draga sig út úr hópnum var Rosenborg með 17 menn á skýrslu í stað 18 sem venjan er.

Þar sem nú fer landsleikjavika í hönd spilar Rosenborg ekki aftur fyrr en 2. apríl og þá gegn Vålerenga á útivelli.

Fyrr í dag tapaði Aalesund 3:0 fyrir Haugesund á útivelli. Aron Elís Þrándarson lék allan leikinn með Aalesund, Adam Örn Arnarson fyrsta klukkutímann, en Daníel Leó Grétarsson sat á bekknum allan tímann. Aalesund er með 3 stig eftir tvo leiki eins og Rosenborg.

mbl.is