Johan Cruyff látinn

Johan Cruyff á fullri ferð í leik Hollands og Argentínu …
Johan Cruyff á fullri ferð í leik Hollands og Argentínu á HM 1974. AFP

Hollenska knattspyrnugoðsögnin Johan Cruyff er látinn 68 ára að aldri. Banamein hans var krabbamein en hann hefur barist við það undanfarna mánuði.

Cruyff hlaut Gullboltann, sem besti knattspyrnumaður heims, þrisvar sinnum á ferlinum en það var árin 1971, 1973 og 1974. Hann er almennt talinn í hópi þeirra fremstu í knattspyrnusögunni og var í landsliði Hollands sem lék til úrslita um heimsmeistaratitilinn í fyrsta skipti árið 1974 en beið lægri hlut fyrir Vestur-Þýskalandi. Cruyff var þá kjörinn besti leikmaður keppninnar.

Cruyff ólst upp hjá Ajax í Amsterdam frá unga aldri og var í röðum félagsins frá 1957 til 1973. Þegar hann fór þaðan til Barcelona hafði hann skorað 190 mörk í 240 deildaleikjum, unnið hollenska meistaratitilinn sex sinnum og hann var lykilmaður í liði Ajax þegar það varð Evrópumeistari þrjú ár í röð, 1971, 1972 og 1973.

Hann varð ennfremur fjórum sinnum hollenskur bikarmeistari með liðinu á þessum tíma, Ajax vann Stórbikar Evrópu árið 1972 og sama ár vann það meistarakeppni Evrópu og Suður-Ameríku.

Cruyff lék með Barcelona frá 1973 til 1978 en þar skoraði hann 48 mörk í 143 deildaleikjum, varð spænskur meistari með liðinu 1974 og bikarmeistari 1978. 

Eftir það dvaldi Cruyff í Bandaríkjunum í tvö ár þar sem hann spilaði með Los Angeles Aztecs og Washington Diplomats. Hann kom aftur til Evrópu 1981 og lék um skeið með Levante á Spáni en sneri svo aftur til Ajax og lék þar í tvö ár. Þá gerði hann 14 mörk í 36 deildaleikjum, varð hollenskur meistari með liðinu bæði árin og bikarmeistari seinna árið.

Ajax endurnýjaði ekki samninginn við Cruyff vorið 1983 og hann brást við því með því að ganga til liðs við erkifjendurna í Feyenoord þar sem hann spilaði eitt tímabil og skoraði 11 mörk í 33 deildaleikjum. Feyenoord vann tvöfalt þetta tímabil með Cruyff innanborðs, varð hollenskur meistari og bikarmeistari.

Cruyff lék 48 landsleiki fyrir Holland á árunum 1966 til 1977 og skoraði í þeim 33 mörk.

Hann sneri aftur til Ajax sem þjálfari árið 1985 og stýrði liðinu til 1988. Ajax varð hollenskur meistari 1986 og 1987 undir hans stjórn og vann UEFA-bikarinn 1987.

Þá fór Cruyff aftur til Barcelona og þjálfaði sitt gamla félag þar í átta ár. Barcelona var geysilega sigursælt undir stjórn Hollendingsins sem hafði gífurleg áhrif á þróun og uppbyggingu liðsins til framtíðar. Barcelona varð spænskur meistari 1991, 1992, 1993 og 1994, Evrópumeistari 1992, bikarmeistari 1990, Evrópumeistari bikarhafa 1989, vann Stórbikar Evrópu 1992 og tapaði úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 1994.

Cruyff er talinn einn þeirra sem hafa haft mest áhrif á þróun fótboltans á undanförnum áratugum, fyrst sem leikmaður og síðan sem þjálfari. Byltingarkenndur leikstíll Hollendinga á áttunda áratugnum, kallaður „Total Football,“ var sniðinn í kringum Cruyff og hann hélt áfram á þeim nótum hjá Ajax og Barcelona.

Ennfremur hefur verkefni Cruyffs, sem nefnist Johan Cruyff Foundation, haft mikil áhrif á uppbyggingu knattspyrnunnar um allan heim. Það stuðlar að uppbyggingu grasrótarinnar í íþróttinni, en stofnunin hefur komið upp meira en 200 sparkvöllum fyrir börn og unglinga í 22 löndum. 

Johan Cruyff fyrir miðju með Evrópubikarinn eftir sigur Ajax í …
Johan Cruyff fyrir miðju með Evrópubikarinn eftir sigur Ajax í Evrópukeppni meistaraliða árið 1972. AFP
Johan Cruyff
Johan Cruyff AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert