Enginn á Íslandi sem styrkir liðið

Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það hefur gengið allt í haginn hjá lærisveinum Ólafs Helga Kristjánssonar hjá danska úrvalsdeildarliðinu Randers á tímabilinu en liðið er í öðru sæti deildarinnar eftir tíu umferðir og hefur aðeins tapað einum leik.

Ólafur tók við þjálfun Randers í sumar en undir lok síðasta ár var honum sagt upp störfum hjá danska liðinu Nordsjælland í kjölfar eigendaskipta hjá félaginu.

„Við höfum farið frábærlega af stað á tímabilinu og nú eru komnir átta leikir í röð án taps í deildinni. Það hefur gengið framar vonum en það er mikið eftir af mótinu svo menn mega ekkert slaka á. Randers hefur aldrei byrjað svona vel og það sem gerir þetta enn sætara hjá okkur er að við höfum lent í skakkaföllum í síðustu leikjum.

Báðir aðalmiðverðir okkar hafa verið í banni í síðustu tveimur leikjum og svo misstum við báða aðal varnartengiliðina okkar í meiðsli. Það er hrikalega sterkt að hafa náð að halda sjó og við hefðum til að mynda átt að vinna leikinn á móti FC Köbenhavn í gær. Liðið spilaði virkilega vel og þetta var í heildina séð virkilega flottur og góður fótboltaleikur. Þessi leikur var svolítil prófraun á okkur og við stóðumst það próf,“ sagði Ólafur.

Ólafur segir að fyrir tímabilið hafi Randers ekki verið spáð í einu af sex efstu sætunum en sú breyting hefur verið gerð á deildinni í ár að sex efstu liðin eftir 26 leiki í deildinni fara í úrslitakeppni um meistaratitilinn en átta neðstu liðin fara í aðra keppni þar sem þau skiptast í tvo fjögurra liða riðla.

,,Við erum liðið sem hefur komið allra mest á óvart á tímabilinu og það er mjög jákvætt. Eins og staða okkar er í deildinni í dag þá höfum við tekið stefnuna á að komast í úrslitakeppnina og þar sem þú tekur stigin með þér í hana þá er mikilvægt að safna mörgum stigum. Deildin hérna er mjög jöfn og hver einasti leikur er mjög erfiður,“ segir Ólafur.

Sjá allt viðtalið við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert