Fór í sturtu með ungum leikmönnum

Bob Higgins er sakaður um að hafa beitt unga leikmenn …
Bob Higgins er sakaður um að hafa beitt unga leikmenn kynferðislegu ofbeldi. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaður frá Möltu heldur því fram að þjálfari hafi haft það fyrir sið að fara í sturtu með leikmönnum þegar hann starfaði hjá maltneska knattspyrnusambandinu.

Bob Higgins var yfirmaður unglingamála hjá Southampton áður en hann gekk til liðs við maltneska knattspyrnusambandið árið 1989, hvar hann var við störf í fimm ár.

Higgins hefur verið sakaður um kynferðislegt ofbeldi gegn ungum leikmönnum Southampton á níunda áratugnum. 

Higg­ins var sýknaður af ásök­un­um um kyn­ferðis­legt of­beldi árið 1992 og hef­ur ávallt neitað að hafa gert eitt­hvað rangt. Hann er enn að störf­um sem þjálf­ari hjá ut­an­d­eildaliðinu Fleet Town.

Matt­hew Le Tissier, einn þekkt­asti knatt­spyrnumaður­inn í sögu Sout­hampt­on og fyrr­ver­andi landsliðsmaður Eng­lands, hefur greint frá því að Higgins hafi nuddað sig og fleiri leikmenn þegar þeir voru naktir.

Forseti maltneska knattspyrnusambandsins, Norman Darmanin Demajo, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Higgins hefði verið vikið frá störfum á árunum 1990-1992 þegar hann var sakaður um að fara í sturtu með ungum leikmönnum. Hann kom aftur til starfa í tvö ár og yfirgaf Möltu síðan árið 1994.

Ónafngreindur fyrrverandi knattspyrnumaður frá Möltu sagði að hann hefði aldrei orðið vitni að misnotkun. Higgins hafi hins vegar verið vanur að keyra hann um í bílnum sínum og snerta á honum fótinn.

„Það virtist eðlilegt fyrir Higgins að afklæðast og fara í sturtu með okkur. Það mátti enginn fara án þess að fara í sturtu og hann kom með okkur,“ sagði leikmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert