Kallaður nasisti og fór eftir einn dag

Roman Zozulya í leik með Úkraínu á EM í Frakklandi …
Roman Zozulya í leik með Úkraínu á EM í Frakklandi í sumar. AFP

Lánsdvöl úkraínska knattspyrnumannsins Roman Zozulya hjá  spænska félaginu Rayo Vallecano er örugglega einhver sú stysta í sögunni því hann yfirgaf félagið eftir tæpan sólarhring í herbúðum þess, eftir að stuðningsmennirnir kölluðu hann nýnasista.

Gengið var frá lánssamningnum á milli Rayo Vallecano og Real Betis í gær, á lokadegi janúargluggans, en Zozulya mætti síðan á fyrstu æfingu sína í gær. Þar biðu stuðningsmennirnir eftir honum með stóra borða með áletrunum um að þetta væri ekki staður fyrir nasista.

Í kjölfarið yfirgaf hann félagið, í samráði við forráðamenn Real Betis, og er kominn til Sevilla á ný þar sem hann æfir með liði sínu til vors. Hann má hins vegar ekki spila meira á þessu tímabili, með öðru liði en Rayo Vallecano.

Zozulya skrifaði opið bréf til stuðningsmanna Rayo Vallecano áður en hann kom til félagsins og í því stóð m.a.: „Því miður átti sér stað misskilningur þegar ég kom til Spánar á sínum tíma en blaðamaður sem þekkti lítið ástandsins í heimalandi mínu og míns ferils skrifaði um mig. Þegar ég kom á flugvöllinn í Sevilla var ég í treyju með merki Úkraínu. Þessi blaðamaður skrifaði að ég hefði verið í treyju með merki uppreisnarmanna, sem er öðruvísi en merki landsins. Real Betis bað um að þessi grein yrði fjarlægð, sem var gert. Viðkomandi fjölmiðill viðurkenndi mistökin og baðst afsökunar. Eins og ég áréttaði við komuna til Real Betis er ég ekki tengdur neinum uppreisnarmönnum eða nýnasistahópum."

En stuðningsmenn Rayo tóku hann ekki trúanlegan og sögðu honum berum orðum að koma sér burt á meðan hans fyrsta og eina æfing hjá félaginu stóð yfir.

Íþróttastjóri Real Betis, Miguel Torrecilla, sagði við spænska fjölmiðla að það hefði verið talið best fyrir leikmanninn að snúa aftur til Sevilla. Hann væri mjög miður sín yfir því sem gerðist og honum yrði vel tekið við endurkomuna til félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert