Sölvi í sigursælu félagi

Sölvi Geir Ottesen
Sölvi Geir Ottesen mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sölvi Geir Ottesen verður fyrsti Íslendingurinn sem spilar sem atvinnumaður í knattspyrnu í Taílandi en hann samdi í gær til eins árs við Buriram United, sigursælasta lið landsins á undanförnum árum.

Sölvi heldur því áfram ferðalagi sínu um óhefðbundnar slóðir því hann hefur síðustu árin leikið í Kína og Rússlandi, síðast með Wuhan Zall í kínversku B-deildinni þar sem hann var fyrirliði á síðasta tímabili.

Taíland er í 126. sæti á heimslista FIFA, í átjánda sæti af 46 Asíuþjóðum á listanum. Efsta deildin þar í landi, T1, er atvinnudeild og meistaraliðin taka þátt í Meistaradeild Asíu. Þar hefur Buriram náð lengst taílenskra liða undanfarin ár en liðið komst í átta liða úrslit árið 2013. Á styrkleikalista asískra félagsliða sem FootballDatabase heldur utan um er Buriram í 26. sæti en eitt taílenskt lið, ríkjandi meistararnir Muangthong, er ofar og í 10. sætinu.

Buriram er frá samnefndri borg með tæplega 1,6 milljónum íbúa í austurhluta Taílands. Félagið er með stærsta völlinn í deildinni, sem rúmar 32.600 manns, og var með bestu aðsókn í deildinni 2016, um 15.500 manns á leik að meðaltali. Buriram varð þó að sætta sig við 4. sætið í deildinni í fyrra eftir að hafa orðið meistari fimm sinnum frá 2008 til 2013.

Sjá meira um félag Sölva og Taíland í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert