Schmeichel og Nadim best

Kasper Schmeichel er besti leikmaður Danmerkur.
Kasper Schmeichel er besti leikmaður Danmerkur. AFP

Markmaður Englandsmeistara Leicester City, Kasper Schmeichel, var valinn besti knattspyrnumaður Danmerkur í hófi þar í landi í kvöld. Nadia Nadim, liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá Portland Thorns, var valin best í kvennaflokki. 

Schmeichel spilaði stórt hlutverk í einu ótrúlegasta afreki knattspyrnusögunnar, er Leicester varð Englandsmeistari og varði hann mark liðsins í öllum leikjum deildarinnar á síðasta tímabili. 

Nadim er fædd í Afganistan, en hún flúði ásamt móður sinni til Danmerkur árið 2000 eftir að faðir hennar var myrtur af Talíbönum. Nadim hefur skorað 19 mörk í 65 landsleikjum og níu mörk í 20 leikjum fyrir Portland. 

Hún hefur ekki verið feimin við að koma með yfirlýsingar í gegnum tíðina og hefur hún verið kölluð hin danska Zlatan Ibrahimovic. 

mbl.is