Fótbolti ekki það mikilvægasta í heimi

Thomas Tuchel á leið úr liðsrútunni fyrir leikinn í dag.
Thomas Tuchel á leið úr liðsrútunni fyrir leikinn í dag. AFP

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Borussia Dortmund, segir að hans menn hafi verið hunsaðir þegar nýr leiktími fyrir viðureign Dortmund og Mónakó var ákveðinn. Þrjár sprengjur voru sprengdar við liðsrútu Dortmund í gær sem varð til þess að leiknum var frestað um sólarhring.

Viðureignin var fyrri leikur liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar en gestirnir frá Mónakó unnu 3:2 og eru því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram eftir viku.

„Við hefðum viljað fá meiri tíma til að ná áttum,“ sagði Tuchel.

„Manni finnst maður vanmáttugur. Eins og maður yrði að halda áfram og ekkert annað skipti máli,“ bætti Tuchel við.

Spænski varnarmaðurinn Marc Bartra braut úlnlið þegar ein af sprengjunum sprakk í gær en enginn annar leikmaður slasaðist. 

Þýska lögreglan hefur greint frá því að árásin hafi verið skipulögð af manni tengdum her­ská­um íslam­ist­um.

„Við vorum aldrei spurðir álits. Okkur voru send skilaboð þess efnis að ákvörðun hefði verið tekin í Sviss. Ég hvet alla til að taka leikinn alvarlega en fótbolti er ekki það mikilvægasta í heimi.“

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert