Mourinho með neikvæð meiðslatíðindi

Zlatan Ibrahimovic virtist meiðast illa á hné.
Zlatan Ibrahimovic virtist meiðast illa á hné. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, varð fyrir miklu áfalli í 2:1-sigrinum á Anderlecht sem tryggði farseðilinn í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Þeir Marcus Rojo og Zlatan Ibrahimivoc fóru báðir meiddir af velli og litu ekki vel út.

„Þetta lítur illa út og ég held að þetta séu ekki einföld meiðsli. Ég ætla samt að bíða með að afskrifa þá fyrr en þeir eru búnir að fara í nánari skoðun. Ég get ekki tjáð mig frekar þar sem ég er knattspyrnustjóri en ekki læknir,“ sagði Mourinho.

Hann segir leikinn hafa verið erfiðan.

„Við áttum 17 skot og þeir 10 skot á markið eða eitthvað álíka, svo leikurinn var erfiður. Þetta var aldrei nein einstefna hjá okkur en þegar við bættum við á miðjunni fórum við að stjórna leiknum betur,“ sagði Mourinho, og hrósaði hetjunni Marcus Rashford.

„Það er hægt að tala um hans styrkleika, sem eru frábærir. En hann er ekki síður góður andlega. Hann hafði ekki skorað síðan í september, en ég treysti honum alltaf. Það skiptir ekki máli þó að hann skori ekki þá sýnir hann alltaf frábært viðhorf,“ sagði Mourinho.

José Mourinho gengur af velli í kvöld.
José Mourinho gengur af velli í kvöld. AFP
mbl.is