Fyrsta hugsun að fara í sterkari deild

Sverrir Ingi Ingason
Sverrir Ingi Ingason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég vissi það alveg þegar ég tók skrefið til Spánar hjá Granada að þeir væru bullandi í fallbaráttu og vissi að það væru góðar líkur á að liðið myndi fara niður. Ég hugsaði þetta þannig að þá myndu jafnvel stærri gluggar opnast fyrir mig í kjölfarið,“ sagði Sverrir Ingi Ingason, landsliðsmaður í knattspyrnu sem samdi í morgun við rússneska úrvalsdeildarliðið FC Rostov til þriggja ára með möguleika á eins árs framlengingu.

„Mér líst bara vel á þetta. Annars hefði maður aldrei slegið til. Þetta er klúbbur sem hefur verið að vaxa mikið í Rússlandi á síðustu árum og sýndi mér mikinn áhuga að fá í sínar raðir. Ég held að báðir aðilar séu bara mjög sáttir með þessa niðurstöðu,“ sagði Sverrir Ingi en þegar mbl.is heyrði í varnarmanninum öfluga var hann nýbúinn í læknisskoðun hjá Rostov.

„Þeir voru náttúrlega í Meistaradeild Evrópu á síðusta tímabili og náðu góðum úrslitum þar. Þeir fóru síðan í Evrópudeildina. Lentu á móti Manchester United og töpuðu þar. Þetta er lið sem er á uppleið og stefnir á að vera í efri hluta deildarinnar og gera eins vel og það getur,“ sagði Sverrir Ingi.

Sverrir við undirskriftina í dag.
Sverrir við undirskriftina í dag. Ljósmynd/Skjáskot úr myndskeiði af vefsíðu Rostov.

Aðdragandinn var ekki langur segir Sverrir en hann segist hafa farið að líta í kringum sig eftir að ljóst varð að Granada, liðið sem Sverrir Ingi gekk í raðir til byrjun árs, féll úr efstu deild Spánar.

„Nei, í sjálfu sér ekki,“ sagði Sverrir aðspurður um hvort aðdragandinn hefði verið langur. „Maður var að líta í kringum sig og meta hvernig markaðurinn lægi. Og eins og þetta spilaðist voru þeir (Rostov) komnir lengst á leið hvað varðar áhuga og svo framvegis. Þeir settu sig fljótlega í samband við Granada og liðin fundu lausn á kaupverði. Þetta gekk nokkuð fljótt fyrir sig þegar áhuginn var orðinn ljós,“ sagði Sverrir.

„Það fyrsta sem ég hugsaði var að færa mig yfir í sterkari deild og betra lið heldur en að vera í 1. deildinni á Spáni. En maður var alveg meðvitaður um það að maður gat alveg verið áfram hjá Granada. Það hefði ekkert verið 100 í hættunni með það. En ég er ánægður með að þetta hafi komið upp,“ sagði Sverrir.

Fjórir íslenskir leikmenn hafa leikið í Rússlandi á undan Sverri. Hannes Þ. Sigurðsson lék með Spartak Nalchik árið 2011, Sölvi Geir Ottesen með Ural 2013 til 2015, Arnór Smárason með Torpedo Moskva 2015, og nú síðast félagi Sverris í landsliðinu, Ragnar Sigurðsson, en hann lék frá 2014-16 með Krasnodar í Rússlandi. Sverrir leitaði að sjálfsögðu til Ragnars.

Sverrir Ingi í baráttu við Antoine Griezmann hjá Atlético Madrid.
Sverrir Ingi í baráttu við Antoine Griezmann hjá Atlético Madrid. AFP

„Ég setti mig í samband við Ragga og við ræddum Rússland. Honum leist vel á þetta hjá mér og sagði mér að hann hefði átt fínan tíma í Rússlandi á sínum tíma. Hann gaf þessu góð meðmæli,“ sagði Sverrir en hann mun búa í borginni Rostov-on-Don í suð-vesturhluta Rússlands.

„Ég er búinn að kynna mér staðinn. Þetta er ágætisstaður hérna í Rússlandi. Ég á eftir að skoða borgina betur en það sem ég hef lesið mér til um og þeir sem ég hef haft samband við tala allir vel um þennan stað. Ég held að staðurinn ætti að vera góður,“ sagði Sverrir.

Sverrir stoppaði stutt við á Spáni, gekk í raðir Granada í janúar en er farinn í júlí. Hann segir hins vegar reynsluna góða en hann spilaði t.a.m. við tvöfalda Evrópumeistara Real Madrid og Atlético Madrid.

„Ég vissi það alveg þegar ég tók skrefið til Spánar hjá Granada að þeir væru bullandi í fallbaráttu og vissi að það væru góðar líkur á að liðið myndi fara niður. Ég hugsaði þetta þannig að þá myndu jafnvel stærri gluggar opnast fyrir mig í kjölfarið. Þetta var líka góð reynsla að spila við góð lið og góða leikmenn. Bæði fótboltalega og allan hátt held ég að þetta hafi verið góð ákvörðun fyrir mig að fara þangað og spila í hálft ár,“ sagði Sverrir Ingi Ingason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert