Magnað að fylgjast með Íslandi

Slaven Bilic á fundinum í dag.
Slaven Bilic á fundinum í dag. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Slaven Bilic, þjálfari enska úrvalsdeildarliðsins West Ham, sat fyrir svörum fréttamanna á Laugardalsvelli í dag. Lærisveinar Bilic mæta Manchester City í æfingaleik á Laugardalsvelli á morgun. Bilic byrjaði að ræða uppgang íslenska landsliðsins. Hann segir velgengni liðsins ekki koma sér á óvart lengur, en Ísland vann England á EM og Króatíu í undankeppni HM á dögunum, Bilic er Króati og fylgist vel með. 

„Það er hætt að koma mér á óvart hvað Ísland er með gott lið. England er með fínt lið en Króatía tapaði líka fyrir Íslandi í júní. Við vorum undirbúnir því að geta tapað. Ég var í Króatíu að horfa á leikinn og við vorum svolítið óheppnir, þetta var klassískur 0:0 leikur. Við spiluðum ekki nógu vel til að vinna leikinn en, Ísland er hættulegt lið og sérstaklega í föstum leikatriðum og skyndisóknum. Á síðustu mínútunni skoraði Ísland eftir hornspyrnu og það var nóg til að vinna leikinn. Það gerði stöðu Króata í riðlinum aðeins erfiðari, en ég er sannfærður um að liðið nái að komast til Rússlands.

En hefur Bilic trú á að Ísland geti komist á HM? 

„Það eru nokkrir leikir eftir og riðilinn er jafn. Ísland á tvo heimaleiki eftir á móti Úkraínu og Kósóvó. Það er margt sem getur gerst en Ísland á klárlega möguleika. Nú býst fólk við árangri frá liðinu sem setur meiri pressu á leikmenn og það verður forvitnilegt að sjá hvernig þeir bregðast við. Það var sama hvað liðið gerði fyrir tveimur árum, það tapaði ekki, nú hefur það aðeins breyst. Það var magnað að fylgjast með íslenska landsliðinu á vellinum og í stúkunni á EM."

Bilic er nokkuð vongóður á að West Ham geti staðið sig vel á komandi leiktíð. 

„Þú verður að hafa trú, ef þú gerir það ekki áttu ekki möguleika. Á hverju ári nær eitt landslið eða félagslið að koma á óvart. Hoffenheim endaði t.d í fjórða sæti í Þýskalandi og auðvitað Leicester, sem varð Englandsmeistari fyrir tveimur tímabilum. Maður verður að vera jákvæður," sagði Bilic.

mbl.is