Brottrekstur Rúnars skilaði sér ekki

Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn í tapi Lokeren í ...
Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn í tapi Lokeren í kvöld. mbl.is/Golli

Lokeren laut í lægra haldi í fyrsta leik sínum undir stjórn Peter Maes eftir að hann tók við stjórnartaumunum hjá liðinu í kjölfar þess að Rúnar Kristinsson var látinn taka pokann sinn í síðustu viku. Lokeren tapaði 2:0 fyrir Mouscron í þriðju umferð belgísku efstu deildarinnar í knattspyrnu karla í kvöld. 

Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar hjá Lokeren sem hefur beðið ósigur í fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni á nýhafinni leiktíð. Lokeren hefur ekki enn tekist að komast á blaði í deildinni á yfirstandandi leiktíð og hefur fengið á sig sjö mörk.

Þrú lið eru stigalaus eftir fyrstu þrjár umferðirnar í deildinni, en auk Lokerken eru það Oostend og Eupen. Lokeren er með næst lökustu markatöluna af þessum þremur liðum og situr þar af leiðandi í næst neðsta sæti deildarinnar.

mbl.is