Real vann meistarabikar Spánar

Samuel Umtiti og Karim Benzema eigast við í kvöld.
Samuel Umtiti og Karim Benzema eigast við í kvöld. AFP

Real Madrid hafði betur gegn Barcelona á heimavelli sínum í seinni leik liðanna um meistarabikar Spánar í knattspyrnu í kvöld, 2:0. Real vann fyrri leikinn 3:1 og vinnur því einvígið samanlangt, 5:1. 

Marco Asensio kom Real Madrid yfir á 4. mínútu með stórglæsilegu marki af löngu færi og Karim Benzema tvöfaldaði forskotið á 39. mínútu með skoti af stuttu færi og þar við sat. 

Cristiano Ronaldo var ekki með Real Madrid í kvöld þar sem hann var úrskurðaður í fimm leikja bann fyrir að ýta við dómara fyrri leiks liðanna. Það kom hins vegar ekki af sök og Real Madrid hefur unnið tvo bikara þegar deildarkeppnin á Spáni er ekki byrjuð, en Real hafði betur gegn Manchester United í leik um meistarabikar Evrópu á dögunum. 

mbl.is