Emil hóf tíunda tímabilið á Ítalíu

Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Golli

Emil Hallfreðsson og samherjar hans í Udinese fóru ekki vel af stað í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í gærkvöld en þeir töpuðu þá 1:2 fyrir Chievo Verona á heimavelli í fyrstu umferðinni.

Emil lék allan leikinn á miðjunni hjá Udinese en hann hóf með þessu sitt tíunda tímabil í ítölsku knattspyrnunni, þar af það sjöunda í A-deildinni. Í fyrra spilaði hann 28 leiki með liðinu í deildinni en Udinese endaði þá í 13. sæti af 20 liðum.

Meistarar Juventus hófu titilvörnina á 3:0-heimasigri gegn Cagliari þar sem Mario Mandzukic, Paulo Dybala og Gonzalo Higuaín skoruðu mörkin.

Inter Mílanó byrjaði á 3:0-heimasigri gegn Fiorentina þar sem Mauro Icardi skoraði tvö mörk og Ivan Perisic eitt og þá hóf AC Milan líka tímabilið á því að vinna 3:0, gegn Crotone á útivelli.

mbl.is