Frumraun Alberts með PSV

Albert Guðmundsson í leik með varaliði PSV.
Albert Guðmundsson í leik með varaliði PSV.

Albert Guðmundsson lék í gær sinn fyrsta leik með PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Lið hans sótti NAC Breda heim og vann öruggan sigur, 4:1, en Albert kom inná sem varamaður undir lok leiksins. Hann leysti af hólmi mexíkóska landsliðsmanninn Hirving Lozano sem gerði þriðja mark PSV í leiknum.

Albert, sem er tvítugur, hefur verið í röðum PSV frá 2015 og undanfarin tvö tímabil hefur hann leikið með varaliði félagsins í hollensku B-deildinni. Þar var hann í stóru hlutverki á síðasta tímabili og skoraði 18 mörk í 34 leikjum liðsins í deildinni.

Hann er eini Íslendingurinn í hollensku úrvalsdeildinni um þessar mundir.

PSV endaði í þriðja sæti í fyrra og hefur byrjað tímabilið vel, er með 6 stig eftir tvær fyrstu umferðirnar.

mbl.is