Balotelli og félagar úr leik

Mario Balotelli spilar ekki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.
Mario Balotelli spilar ekki í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. AFP

Fimm leikir voru á dagskrá í umspili um sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Mario Balotelli og félagar í franska liðinu Nice eru úr leik eftir 2:0-tap gegn Napoli á heimavelli. Napoli vann einvígið 4:0 samanlagt. 

Skotlandsmeistarar Celtic töpuðu fyrir Astana í Kasakstan í dag, 4:3, en þrátt fyrir það fer Celtic áfram, 8:4 samanlagt. Sevilla og İstanbul Başakşehir gerðu 2:2-jafntefli í Sevilla en spænska liðið fer áfram með samanlagt 4:3-sigri. 

Slóvenska liðið Maribor, sem sló FH úr leik í síðustu umferð, er komið í riðlakeppnina eftir 1:0-heimasigur á Hapoel Be'er Sheva frá Ísrael. Einvígið endaði 2:2-samanlagt en Maribor fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. 

Olympiacos frá Grikklandi er einnig komið í riðlakeppnina eftir 1:0-útisigur á Rijeka frá Króatíu. Olympiacos vann einvígið 3:1-samanlagt. 

mbl.is