Hólmar lánaður í fjögur ár

Hólmar Örn Eyjólfsson á landsliðsæfingu.
Hólmar Örn Eyjólfsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson skrifaði rétt í þessu undir samning við búlgarska félagið Levski Sofia til fjögurra ára en hann kemur þangað frá Maccabi Haifa í Ísrael.

Hólmar gekk til liðs við ísraelska félagið um síðustu áramót og samdi til fjögurra og hálfs árs en Levski og Maccabi gengu frá samkomulagi um fjögurra ára lánssamning, sem er þó á þann veg að Ísraelarnir geta ekki kallað hann til baka.

Staða Hólmars og margra annarra leikmanna Maccabi Haifa breyttist verulega í mars þegar þjálfarinn og íþróttastjórinn sem fengu hann til félagsins voru báðir reknir frá félaginu. Í Ísrael eru reglur um erlenda leikmenn á þá leið að þeir mega aðeins vera sex talsins hjá hverju félagi.

Hólmar sagði við mbl.is að í kjölfarið hefðu orðið mikil umskipti hjá félaginu.

„Nýi þjálfarinn vildi fá  sex erlenda leikmenn sem hann veldi sjálfur og þess vegna eru allir útlendingarnir sem voru í röðum félagsins farnir. Forráðamenn Haifa vildu fá eina milljón evra fyrir mig en um leið var erfitt fyrir önnur félög að kaupa mig í lok félagaskiptagluggans vegna útlendingakvótans. Á endanum var lausnin sú að fara á fjögurra ára lán, því þeir vildu ekki hafa eina milljón evra í mínus í sínum bókum," sagði Hólmar sem kom til Búlgaríu í vikunni og hefur strax æfingar með Levski Sofia.

„Núna bíð ég spenntur eftir því að byrja með nýja félaginu sem ætlar sér stóra hluti, hefur keypt góða leikmenn og fengið inn Delio Rossi sem þjálfara. Markmiðið er að spila vel og koma mér aftur í landsliðið sem fyrst," sagði Hólmar sem var síðast í landsliðshópi Íslands í mars og var þá varamaður gegn Kósóvó og kom inn á í vináttulandsleiknum við Íra.

Hann gæti spilað fyrsta leikinn 6. september þegar Levski mætir Ludogorets. Sjö umferðum er lokið í búlgörsku 1. deildinni, eins og efsta deildin heitir þar í landi, en Levski hefur spilað sex leiki. Liðið er með 13 stig í fimmta sæti en er aðeins þremur stigum á eftir toppliði CSKA og einu á eftir Ludogorets sem er í öðru sæti.

Levski Sofia er gamalgróið félag sem lengi vel var það sterkasta í Búlgaríu ásamt CSKA en hefur fengið harða samkeppni frá fleiri félögum, svo sem Ludogorets Razgrad, á seinni árum. Levski er eina félagið í Búlgaríu sem hefur alltaf spilað í efstu deild og það hefur orðið 26 sinnum meistari, síðast 2009, og 25 sinnum bikarmeistari, síðast 2007.

Hólmar er 27 ára gamall og spilaði 19 leiki með HK í úrvalsdeildinni 16-17 ára gamall árin 2007 til 2008 áður en hann gerðist atvinnumaður hjá West Ham. Hann var lánaður þaðan til Cheltenham og belgíska liðsins Roeselare en spilaði síðan með Bochum í Þýskalandi og Rosenborg í Noregi áður en Maccabi Haifa keypti hann um síðustu áramót. 

Hólmar hefur leikið sex A-landsleiki og spilaði áður 47 leiki með yngri landsliðum Íslands, þar af 27 með 21-árs landsliðinu sem er leikjamet í þeim aldursflokki.

Hólmar er þriðji Íslendingurinn sem gengur til liðs við búlgarskt félag. Skagamaðurinn Garðar Gunnlaugsson lék með CSKA Sofia tímabiið 2008-2009 og Grindvíkingurinn Jósef Kristinn Jósefsson var í röðum Chernomore Varna í nokkra mánuði árið 2011.

mbl.is