„Hvað er að gerast?“

Stríðshrjáðir Sýrlendingar fögnuðu innilega í leikslok eftir 2:2-jafntefli karlalandsliðs þeirra í knattspyrnu gegn Íran í gær. Úrslitin þýða að liðið mætir Ástralíu í umspili um hvort liðið leik­ur síðan gegn fjórða liði Norður-Am­er­íku um end­an­legt sæti á HM 2018 í Rússlandi.

Frá því að stríð braust út í landinu fyrir rúmum sex árum er talið að um 400.000 Sýrlendingar hafi látist. Fjöldi Sýrlendinga fagnaði innilega í gær en möguleiki er á því að Sýrland verði í fyrsta sinn á meðal þátttökuliða á heimsmeistaramóti næsta sumar.

Leikmenn Sýrlands fögnuðu innilega í Íran í gær.
Leikmenn Sýrlands fögnuðu innilega í Íran í gær. AFP

„Heimasigur“ [leikurinn var leikinn í Malasíu vegna ástandsins í Sýrlandi]  gegn Katar síðastliðinn fimmtudag gerði það að verkum að sæti í umspili yrði gulltryggt með sigri í Íran í gær. Jafntefli myndi duga ef Úsbekist­an tækist ekki að vinna Suður-Kóreu.

Eftirvæntingin vegna leiksins var mikil og þrem risaskjám hafði verið komið fyrir í höfuðborginni Damascus til að almenningur gæti fylgst með gangi mála í Íran. 

Allt leit út fyrir að draumur Sýrlendinga um sæti á HM væri úr sögunni þegar staðan var 2:1 fyrir Íran, komið fram í uppbótartíma og heimamenn léku boltanum sín á milli í rólegheitum. Leik Úsbekist­an og Suður-Kóreu var lokið með markalausu jafntefli og því ljóst að jöfnunarmark gestanna myndi koma þeim í umspil.

Sýrlendingar gáfust ekki upp, unnu boltann, brunuðu fram í hraða sókn og sóknarmaðurinn Omar Al-Somah kom boltanum í netið milli fóta Alireza Beiranvand í marki Írana.

Fólk fylgdist með leiknum.
Fólk fylgdist með leiknum. AFP

Al Somah hljóp að hornfánanum og var brátt neðstur í hrúgu fagnandi Sýrlendinga. Þúsundir stuðningsmanna fögnuðu á götum Damascus þegar úrslitin lágu fyrir. Enginn fagnaði þó jafnmikið og sýrlenski lýsandinn en hann brast í grát þegar Al-Somah jafnaði metin.

„Getum við sagt að við höfum kastað draumnum frá okkur,“ segir lýsandinn í upphafi myndskeiðs, rétt áður en Al-Somah jafnar metinn. Örskömmu síðar vinna Sýrlendingar boltann af Írönum og jafna metin.

Almenningur fagnaði á götum úti í Damascus.
Almenningur fagnaði á götum úti í Damascus. AFP

„Hvað er að gerast?“ öskrar lýsandinn og brestur í grát, eins og heyra má í meðfylgjandi myndskeiði:

„Þetta er mesti gleðidagur lífs míns,“ sagði hinn 26 ára gamli Bashir Rahal en hann horfði á leikinn á hóteli í Damascus. 

Andstæðingar forsetans, Bashar al-Assad, létu í sér heyra á samfélagsmiðlum að leik loknum. Sumir sögðu liðið vera fulltrúa ríkisstjórnar hans. Aðrir deildu myndum af íþróttamönnum sem voru myrtir í stríðinu.

Frétt BBC.

Frétt Guardian.

Það getur tekið á taugarnar á fylgjast með knattspyrnuleik.
Það getur tekið á taugarnar á fylgjast með knattspyrnuleik. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert