Alfreð með flensu í þriggja manna þrennuhóp

Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu.
Alfreð Finnbogason fagnar marki sínu. Ljósmynd/fcaugsburg.de

Alfreð Finnbogason varð um helgina þriðji Íslendingurinn í sögunni til að skora þrennu í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla.

Alfreð skoraði þá öll mörk Augsburg í 3:0-sigri á Köln. Aðeins Atli Eðvaldsson og Eyjólfur Sverrisson höfðu unnið sams konar afrek áður.

Þar með hefur Alfreð skorað þrennu í deildarkeppni í fjórum löndum. Hann skoraði þrennu fyrir Breiðablik í 4:0-sigri á Stjörnunni í júlí 2010, aftur fyrir Helsingborg í 4:1-sigri á Gefle í Svíþjóð 2012 og einnig fyrir Heerenveen í 5:2-sigri á Waalwijk í Hollandi haustið 2013. Við þetta má svo bæta fernu sem Alfreð skoraði fyrir Heerenveen gegn Kozakken Boys í hollenska bikarnum.

Alfreð skoraði þrennuna þrátt fyrir að vera enn að jafna sig af flensuvírus sem hann fékk í landsleikjahléinu, samkvæmt heimasíðu þýsku 1. deildarinnar:

„Það lítur út fyrir að vírusinn hafi hjálpað honum, svo kannski ætti hann að reyna að halda í hann,“ sagði Manuel Baum, þjálfari Augsburg, léttur í bragði. Liðið er í 8. sæti í deildinni og Alfreð markahæstur með fjögur mörk.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert