Er of feitur til að spila

Carlos Tévez.
Carlos Tévez. AFP

Þjálfari kínverska úrvalsdeildarliðsins Shanghai Shenhua segir að argentínski sóknarmaðurinn Carlos Tévez sé of feitur til að spila í deildinni.

Tévez er nýkominn aftur til Kína eftir að jafnað sig af meiðslum í heimalandi sínu en Wu Jingui, sem nýlega tók við þjálfun Shanghai Shenhua af Gus Poyet, segir að leikmaðurinn sé ekki í standi líkamlega til að spila eins og er.

„Ég mun ekki velja hann í liðið sem stendur. Hann er of þungur. Ég er ábyrgur fyrir liðinu og leikmönnum þess,“ sagði Wu Jingui við kínverska fjölmiðla.

Tévez gekk í raðir kínverska liðsins frá Bocca Juniors í janúar og er hæst launaði leikmaðurinn í kínversku deildinni. Vikulaun hans jafngilda rúmum 85 milljónum króna.

mbl.is