Messi saxaði á Ronaldo

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Tveir bestu fótboltamenn veraldar.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi. Tveir bestu fótboltamenn veraldar. AFP

Cristiano Ronaldo hefur níu marka forskot á Lionel Messi yfir fjölda marka í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu.

Messi skoraði tvö mörk í 3:0 sigri Barcelona gegn Juventus í gærkvöld og hefur þar með skorað 96 mörk í Meistaradeildinni. Cristiano Ronaldo hefur hins vegar skorað 105 mörk og ekki er ólíklegt að hann bæti við þann fjölda í kvöld þegar Real Madrid tekur á móti APOEL Nicosia.

Báðir hafa þessir snillingar skorað sjö þrennur í Meistaradeildinni, fleiri en nokkur annar leikmaður, og báðir hafa þeir afrekað að skora 9 mörk á móti einu og sama liðinu í Meistaradeildinni, Ronaldo gegn Bayern München og Messi á móti Arsenal.

Messi hefur aðeins þrívegis verið í tapliði þegar hann hefur skorað í Meistaradeildinni og Ronaldo er eini leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar sem hefur náð að skora þrennu í úrslitaleik.

mbl.is