Messi sneri á Buffon

Lionel Messi fagnar marki gegn Juventus í gærkvöld.
Lionel Messi fagnar marki gegn Juventus í gærkvöld. AFP

Riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu fór af stað í gærkvöldi og voru margir leikirnir býsna ójafnir. Athyglisverðasta viðureignin var leikur stórveldanna Barcelona og Juventus í Nývangi í Katalóníu.

Lionel Messi var drjúgur að venju en hann skoraði tvívegis og lagði upp eitt í 3:0 sigri Barcelona. Ekki skemmtileg byrjun fyrir ítölsku meistarana sem voru í úrslitaleik keppninnar í sumar og hafa raunar farið í úrslit í tvö af síðustu þremur skiptum. Árið 2015 tapaði liðið einmitt fyrir Barcelona í úrslitaleiknum en á síðasta tímabili sló Juventus hins vegar Barcelona út úr keppninni.

Messi skoraði á 45. og 69. mínútu en í millitíðinni skoraði Króatinn Ivan Rakitic á 56. mínútu. Þótt Messi sé orðinn öllu vanur í boltanum þá má þó tína til nýja upplifun fyrir hann í umræddum leik en Messi hafði aldrei fyrr tekist að skora hjá ítölsku goðsögninni Gianluigi Buffon sem varði mark Juve.

Börsungar virtust ekki sakna Neymars mikið í þetta skiptið en hann tók þátt í 5:0 stórsigri hjá PSG í Glasgow á móti Celtic. Ekki tók það Neymar nema 19 mínútur að skora fyrir PSG í Meistaradeildinni og hann lagði einnig upp annað mark liðsins fyrir Kylian Mbappe. Edinson Cavani skoraði tvívegis fyrir PSG og eitt markanna var sjálfsmark. Að sögn BBC var um að ræða stærsta tap Celtic á heimavelli í Evrópuleik frá upphafi en liðið má greinilega muna sinn fífil fegurri.