„Svona á ekki að gerast“

Franck Ribéry kastar treyju sinni á varamannabekkinn í gærkvöld.
Franck Ribéry kastar treyju sinni á varamannabekkinn í gærkvöld. AFP

Frakkinn Franck Ribéry í liði Bayern München brást illur við þegar hann var kallaður af leikvelli í 3:0 sigri Bayern gegn Anderlecht í Meistaradeildinni í gær.

Þráðurinn er oft stuttur hjá Ribéry og það kom berlega í ljós þegar honum var skipt af leikvelli þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Frakkinn reif sig úr treyjunni og kastaði henni á varamannabekkinn.

„Svona á ekki að gerast hjá Bayern München. Þetta er ekki í lagi og það verður tekið á þessu,“ sagði Hasan Salihamidzic, yfirmaður knattspyrnumála hjá þýska stórliðinu, við fjölmiðla eftir leikinn.

Carlo Ancelotti, þjálfari Bayern München, sagðist ekki skilja viðbrögð Ribéry.

„Ég get að sjálfsögðu skilið að leikmenn vilji spila í 90 mínútur. Ég tók ekki Ribéry af velli vegna frammistöðu hans. Hann stóð sig vel. Við höfðum leikinn í okkar höndum og þar sem hann var lítillega meiddur æfði hann ekki með liðinu á sunnudaginn. Ég vildi því gefa honum smá hvíld,“ sagði Ancelotti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert