Tveir „hákarlar“ komnir fram úr Alfreð

Alfreð fagnar marki með Augsburg.
Alfreð fagnar marki með Augsburg. Ljósmynd/Augsburg

Alfreð Finnbogason, framherji Augsburg, var um tíma einn markahæstur í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu en nú hafa tvær stórstjörnur skotist fram úr Alfreð á markalistanum.

Pólverjinn Robert Lewandowski úr Bayern München er markahæstur eftir fimm umferðir með 6 mörk og á hæla hans kemur Gabonmaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang úr Dortmund með 5 mörk.

Alfreð er svo jafn fjórum öðrum leikmönnum með 4 mörk en hann verður í eldlínunni á laugardaginn þegar Augsburg sækir Stuttgart heim. Augsburg er í 5. sæti deildarinnar með 10 stig, er þremur stigum á eftir toppliði Borussia Dortmund.

mbl.is