Óskaplega ánægður fyrir hönd Kára

Kári Árnason og Hörður Björgvin Magnússon fagna marki gegn Króötum …
Kári Árnason og Hörður Björgvin Magnússon fagna marki gegn Króötum í sumar. mbl.is/Golli

Derek McInnes knattspyrnustjóri skoska úrvalsdeildarliðsins Aberdeen hrósar Kára Árnasyni og samherjum hans í íslenska landsliðinu fyrir stórkostlegt afrek að komast inn á HM en Kári leikur undir hans stjórn með Aberdeen.

„Ég er óskaplega ánægður fyrir hönd Kára að komast á HM. Þetta er frábært afrek og þegar maður sá fögnuð þeirra sá maður hvað þetta hafði mikla þýðingu fyrir hann, leikmennina og fyrir þjóðina.

Fyrir þessa litlu þjóð er þetta magnaður árangur og Kári hefur átt stóran þátt í honum. Hann er einn af lykilmönnum landsliðsins og hann tók með sér gott form inn í síðustu leiki landsliðsins í undankeppninni,“ segir McInnes en Kári steig ekki feilspor í hjarta varnarinnar í leikjunum gegn Tyrklandi og Kosovó og innsiglaði frábæran 3:0 sigur á Tyrkjum með því að skora síðasta markið.

McInnes segir að það verði gaman fyrir stuðningsmenn Aberdeen að sjá einn af sínum uppáhalds leikmönnum spila á stærsta sviðinu eftir að Skotum mistókst að vinna sé sæti á HM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert