Glæsileg tilþrif Alberts - myndskeið

Albert Guðmundsson í leik með PSV.
Albert Guðmundsson í leik með PSV. Ljósmynd/Heimasíða PSV

Albert Guðmundsson sýndi glæsileg tilþrif er hann lagði upp eitt mark og skoraði tvö í 3:2 sigri Jong PSV á Waalwijk hollensku B-deildinni í knattspyrnu en liðið er vara- og unglingalið PSV. Tilþrif Alberts má sjá hér að neðan en þau voru ekki af verri endanum.

Albert æfir með aðalliði PSV og hefur fengið að spreyta sig í þremur leikjum liðsins á tímabilinu. „Ég myndi vilja spila meira en ég þarf bara að vera þolinmóður og treysta þjálfurunum sem ég er með hérna,” sagði Albert við Eindhovens Dagblad.

Hann lagði fyrsta mark liðsins upp með fallegri sendingu, fiskaði víti og skoraði á afar yfirvegaðan hátt úr því sjálfur áður en hann skoraði sigurmarkið þegar hann slapp í gegnum vörnina og lék á markvörðinn.

„Ég er ánægður með frammistöðu mína í kvöld,“ sagði Albert og sagðist vona til þess að hann hafi náð að sannfæra þjálfara PSV um að hann sé klár í slaginn með aðalliðinu.

mbl.is