Bjerregaard vill spila í dönsku úrvalsdeildinni

André Bjerregaard í leik með KR í sumar.
André Bjerregaard í leik með KR í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Danski framherjinn André Bjerregaard, sem lék með KR-ingum síðari hluta tímabilsins í Pepsi-deildinni, vill komast aftur í dönsku úrvalsdeildina.

Bjerregad lék í sjö ár með Horsens áður en hann kom til KR-inga og hann skoraði 4 mörk í 10 leikjum með Vesturbæjarliðinu í Pepsi-deildinni í sumar. Sóknarmaðurinn sterki varð fyrir því óláni að brjóta dálkbein í fótleggnum í leiknum gegn KA í 20. umferðinni og lék ekkert meira með KR-liðinu eftir það. KR-ingar hafa mikinn áhuga á fá Danann aftur til liðs við sig.

„Það hafa komið nokkrar fyrirspurnir og ég get líka farið aftur til Íslands. En ég bíð eftir að sjá hvað gerist áður en ég tek ákvörðun og ég býst við að taka hana í desember,“ segir Bjerregaard í viðtali við danska blaðið Horsens Folkeblad.

„Það var góð reynsla að spila á Íslandi. Fólkið þar er gott og ég fékk betri móttökur en maður fær vanalega hjá dönskum liðum. Þeir voru ánægðir með mig og ég fékk gott umtal í blöðunum. Vellirnir voru fínir og það var mikill áhugi á fótboltanum sérstaklega á því tímabili þegar Íslendingar voru að berjast um HM-farseðilinn,“ segir Bjerregaard.

 

mbl.is