Vonbrigði á Wembley – Loksins hjá Lukaku

Joseph Gomez í liði Englands reynir að verjast Leroy Sane ...
Joseph Gomez í liði Englands reynir að verjast Leroy Sane á Wembley í kvöld. AFP

Það var fátt um fína drætti á Wembley í kvöld þegar England og Þýskaland gerðu markalaust jafntefli í vináttulandsleik þjóðanna.

Leroy Sané, leikmaður Manchester City, átti skot í þverslá Englands en annars var enska liðið skeinuhættara lengst af í leiknum. Meðal annars fékk Jesse Lingard dauðafæri í uppbótartíma en brást bogalistin og niðurstaðan markalaus.

England tefldi fram fimm nýliðum í leiknum. Jordan Pickford, Ruben Loftus-Cheek og Tammy Abraham voru í byrjunarliðinu og þeir Joe Gomez og Jack Cork komu inná sem varamenn.

Það var hins vegar markaveisla í Belgíu þegar Belgía og Mexíkó gerðu jafntefli, 3:3. Eden Hazard kom Belgíu yfir áður en Romelu Lukaku fann markaskóna á ný og skoraði tvö mörk, en hann hefur ekki skorað í síðustu sjö leikjum Manchester United. Hjá Mexíkó skoraði Hirving Lozano tvö mörk og Andres Guardado eitt.

Á sama tíma vann Frakkland lið Wales í vináttuleik, 2:0, þar sem Antoine Griezmann og Oliver Giroud skoruðu mörkin.

Romelu Lukaku og Eden Hazard voru markaskorarar Belgíu í kvöld.
Romelu Lukaku og Eden Hazard voru markaskorarar Belgíu í kvöld. AFP
mbl.is