Aftur dauft hjá enskum – Lukaku í sögubækur

Gabriel Jesus og Jesse Lingard berjast um boltann í kvöld.
Gabriel Jesus og Jesse Lingard berjast um boltann í kvöld. AFP

England gerði annað markalausa jafnteflið í röð þegar Brasilía mætti á Wembley í vináttuleik í kvöld. Áður gerði England markalaust jafntefli við Þjóðverja á föstudagskvöld.

Hins vegar ritaði Romelu Lukaku, framherji Manchester United, nafn sitt í knattspyrnusögu Belgíu í kvöld þegar hann varð markahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar frá upphafi.

Lukaku tryggði Belgíu 1:0-sigur á Japan í vináttuleik og hefur nú skorað 31 mark í 65 landsleikjum og nær hann þessum árangri aðeins 24 ára gamall eftir að hafa leikið sinn fyrsta landsleik árið 2010.

Af öðrum úrslitum má nefna að Spánn og gestgjafar HM, Rússland, gerðu 3:3 jafntefli þar sem Sergio Ramos skoraði meðal annars úr tveimur vítaspyrnum fyrir Spán.

Þá gerðu Þýskaland og Frakkland 2:2 jafntefli í stórslag og Lars Lagerbäck tapaði með Noregi fyrir Slóvakíu, 1:0.

Romelu Lukaku var vel fagnað eftir árangurinn sögulega í kvöld.
Romelu Lukaku var vel fagnað eftir árangurinn sögulega í kvöld. AFP
mbl.is