Eriksen sprengdi skalann

Christian Eriksen var frábær í kvöld.
Christian Eriksen var frábær í kvöld. AFP

Christian Eriksen er á allra vörum í Danmörku í kvöld eftir að hafa skorað þrennu og átt stórkostlegan leik þegar Danir tryggðu sæti sitt á HM í Rússlandi með 5:1-sigri á Írlandi í umspili þjóðanna.

Eriksen hefur fangað allar fyrirsagnir dönsku miðlanna og í einkunnargjöf danska ríkisútvarpsins segir hreinlega að hann hafi sprengt skalann.

„Í 75. landsleik sínum (aðeins 25 ára!) sýndi hann allar sínar bestu hliðar til þess að koma Dönum í 2:1. Og 3:1. Já og líka 4:1! Eriksen myndi fá einkunnina 100 ef hún væri í boði,“ segir í umsögninni og fær hann einkunnina 12 sem er sú hæsta í danska kerfinu. Hjá TV2 fékk hann svo 7 í einkunn þar sem hæst er gefið 6.

Auk hans fær William Kvist 12 í einkunn hjá DR ásamt norska landsliðsþjálfaranum Åge Hareide þar sem honum er hrósað fyrir val sitt í byrjunarliðið. Þá ætti hans alltaf að vera minnst fyrir það að gefa Eriksen lausan tauminn í landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert