Stuðningsmannaskírteini á HM ígildi vegabréfsáritunar

Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.
Borgar Þór Einarsson hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Mynd/ Magasínið

Stuðningsmannaskilríki og rússneskt smásímaforrit er nokkuð sem þeir Íslendingar sem ætla á HM 2018 í Rússlandi verða að kynna sér. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, segir fólk þurfa að hafa miklu meiri fyrirvara á nú en í Frakklandi.  

Í Magasíninu á K100 var farið yfir það hvernig utanríkisþjónustan er byrjuð að undirbúa þátttöku Íslands í einum stærsta viðburði heims í einu stærsta landi veraldar. 

Fótboltabrandari Pútíns misskilinn

Fótboltinn spilar inn í heimsmálin segir Borgar Þór og rifjar upp skemmtilega sögu Pútíns sem var misskilin og rataði að lokum inn á fréttavef í Rússlandi. Hann lýsir fundi þar sem nokkrir þjóðarleiðtogar, þeirra á meðal Guðni forseti, Pútín og finnski forsetinn, hafi staðið uppi á sviði er talið barst að fótbolta. Pútín hafi þá sagt á léttum nótum: „Við getum kannski hjálpað ykkur með vörnina,“ og Borgar segir viðstadda hafa hlegið og haft gaman af. 

Gamanið hafi hins vegar kárnað þegar menn áttuðu sig á að brandarinn hefði verið miskilinn og töluvert önnur merking komin í hann þegar fréttavefur í Rússlandi birti frétt um málið með fyrirsögninni „Russia to provide Iceland with defend force“. 

Fan ID eða stuðningsmannaskírteini ígildi vegabréfsáritunar

„Fyrir Íslendinga virkar þetta þannig að þú kaupir miða, svo skráirðu þig á sérstaka síðu þar sem þú sækir um þetta stuðningsmannaskírteini, færð það sent í pósti og þannig kemstu inn í landið. Og þannig nýtur þú ákveðinna fríðinda meðan á dvöl þinni stendur í Rússlandi. Það er til dæmis ókeypis í almenningssamgöngur með því að sýna þetta skilríki og þú tilheyrir ákveðnum hópi sem Rússar ætla augljóslega að halda svolítið þétt utan um,“ segir Borgar Þór. 

Mörg tímabelti og einn leikstaður í Asíu

Borgar Þór segir þetta alls ekki verða líkt því sem Íslendingar hafa átt að venjast í Frakklandi síðasta sumar á EM. Í Rússlandi sé til dæmis ekki einfalt að skella sér inn á vefsíðu til að ætla að leigja bíl með skömmum fyrirvara og vegalengdir séu einnig allt aðrar en fólk eigi að venjast frá Frakklandi. 

„Þarna ertu í landi sem spannar einhver fjögur, fimm tímabelti í raun og einn leikstaðurinn er í Asíu,“ segir Borgar Þór. Því vill utanríkisþjónustan undirstrika að það þurfi góðan fyrirvara og fólk þurfi helst að ákveða sig mjög fljótlega. 

Rússneskt smásímaforrit tilbúið

Hvort íþróttamót muni marka straumhvörf í samskiptum við Rússa, eftir refsiaðgerðir þeirra gagnvart okkur Íslendingum, segir Borgar Þór verða að koma í ljós. Það sé í það minnsta ljóst að Rússarnir vilji nota þetta tækifæri til að sýna sínar allra bestu hliðar. 

Að lokum berst talið að smásímaforriti sem áhorfendur munu geta nálgast. „Já það er semsé app sem rússnesk stjórnvöld hafa gefið út og heitir Welcome 2018.“ Þegar þáttarstjórnendur grínast með hvort óhætt sé að hlaða niður forritum frá rússneskum stjórnvöldum í ljósi umræðunnar segist hann ekki þekkja það hvort smásímaforritið sé sótt inn á KGB.com eða ekki. 

Viðtalið í heild má nálgast hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert