Jóhann Berg bíður spenntur eftir Messi

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar fagna marki gegn Englandi á …
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar fagna marki gegn Englandi á EM 2016. AFP

„Þetta á eftir að verða ólýsanleg lífsreynsla,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, um heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar þar sem Ísland verður sem kunnugt er í fyrsta sinn á meðal þátttakenda.

„Þetta var svolítið skrítið fyrir dráttinn að átta sig á því að við værum í alvörunni með. Svo var þetta raunverulegra þegar búið var að draga. Við erum að fara á HM, sem er stærsta mót í heimi,“ sagði Jóhann Berg við staðarmiðil í Burnley.

„Fyrir þjóð eins og Ísland sem verður sú fámennasta í sögu HM er þetta einstakt. Við verðum alltaf í sögubókunum. En það er langt í þetta og maður þarf að einbeita sér að félagsliðinu,“ sagði Jóhann Berg.

Ísland er sem kunnugt er í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu. Hvað finnst Jóhanni um riðilinn?

„Þetta er erfiður riðill gegn mjög góðum liðum en ég hlakka sérstaklega mikið til fyrsta leiksins við Argentínu. Á EM spiluðum við fyrst við Portúgal og [Cristiano] Ronaldo, nú er það Argentína og [Lionel] Messi. Það er bara gaman,“ sagði Jóhann Berg og hlakkar til að mæta Messi.

„Messi er einn sá besti og ef ekki bara sá besti sem hefur snert bolta, svo það verður mjög gaman að bera sig saman við hann. Við vitum að við þurfum að verjast 95% af leiknum en við gætum alveg komið á óvart.“

Hann er hins vegar ekki hrifinn af því að mæta Króatíu, enda oft spilað gegn þeim síðustu árin.

„Ég er ekki mjög ánægður með það, en við vitum að við getum unnið þá. Nígería er svo einn sterkasti andstæðingurinn í fjórða styrkleikaflokki og það getur allt gerst á HM. Við höfum staðið okkur vel síðustu ár og munum njóta þess að spila og reyna að gera vel á ný,“ sagði Jóhann Berg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert