Sextán liða úrslitin klár

Cristiano Ronaldo og félagar í Real Madrid eru í neðri ...
Cristiano Ronaldo og félagar í Real Madrid eru í neðri styrkleikaflokknum og geta mætt Manchester United, París SG, Roma, Liverpool, Manchester City eða Besiktas. AFP

Eftir leiki kvöldsins í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu er endanlega ljóst hvaða sextán lið fara í útsláttarkeppnina sem hefst í lok febrúar, og hvaða átta lið fara í 32ja liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Dregið verður til 16-liða úrslitanna á mánudaginn og þar verða liðin átta sem unnu riðlanna í fyrsta styrkleikaflokki og verða dregin gegn hinu átta sem enduðu í öðru sæti og í öðrum styrkleikaflokki. Liðin í fyrsta flokki byrja einvígið á útivelli.

Fyrsti flokkur:
Manchester United
París SG
Roma
Barcelona
Liverpool
Manchester City
Besiktas
Tottenham

Annar flokkur:
Basel
Bayern München
Chelsea
Juventus
Sevilla
Shakhtar Donetsk
Porto
Real Madrid

Lið frá sama landi geta ekki dregist saman og ekki heldur þau sem eru í sama riðli. Þar sem fjögur ensk lið eru í fyrsta flokki getur t.d. Chelsea aðeins dregist gegn þremur liðum, París SG, Barcelona og Besiktas.

Einu liðin í fyrsta flokki sem eru örugg um að losna við Real Madrid eru Barcelona og Tottenham og París SG er eina liðið í fyrsta flokki sem sleppur örugglega við Bayern München.

Liðin átta sem urðu í þriðja sæti riðlanna fara í 32ja liða úrslit Evrópudeildarinnar, en þar lýkur riðlakeppninni annað kvöld og dregið er á mánudaginn. Þessi átta lið eru:

CSKA Moskva
Celtic
Atlético Madrid
Sporting Lissabon
Spartak Moskva
Napoli
RB Leipzig
Borussia Dortmund

Þau átta lið sem urðu neðst í riðlunum hafa lokið keppni en það eru Benfica, Anderlecht, Qarabag, Olympiacos, Maribor, Feyenoord, Mónakó og APOEL Nicosia.

mbl.is