„Hef heyrt í Valsmönnum“

Birkir Már Sævarsson.
Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Golli

„Það er óvíst hvað tekur við hjá mér,“ sagði landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson í samtali við mbl.is en eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag hefur Birkir yfirgefið sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby.

„Ég hef ekki fengið nein tilboð enn sem komið en það er eitthvað að lifna yfir þessu,“ sagði Birkir. Hann hefur verið orðaður við sitt gamla lið, Val, en Birkir Már lék með Valsmönnum áður en hann hélt út í atvinnumennskuna 2008.

„Ég get alveg viðurkennt að ég hef heyrt frá Valsmönnum,“ sagði Birkir spurður að því hvort Íslandsmeistararnir hafi sett sig í samband við hann.

Birkir Már er þessa dagana að jafna sig eftir að hafa viðbeinsbrotnað í lokaumferð sænsku deildarinnar í síðasta mánuði.

„Viðbeinið er á góðri leið. Það grær hægt en örugglega,“ sagði Birkir Már.

mbl.is