Var allt mjög spes en ég sé ekki eftir neinu

Arnór Ingvi Traustason í búningi Malmö.
Arnór Ingvi Traustason í búningi Malmö. Ljósmynd/Malmö

„Mér líst mjög vel á þetta og hlakka til að byrja,“ sagði Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, við mbl.is í dag eftir að hafa skrifað undir samning við sænska meistaraliðið Malmö.

Arnór Ingvi kemur til félagsins frá Rapid Vín í Austurríki, en hann hefur verið í láni hjá AEK Aþenu í Grikklandi í vetur. Þar hefur hann ekki fengið að spila mikið og skiljanlega ekki verið ánægður.

„Nei ég var það ekki og ég held að enginn fótboltamaður hefði verið ánægður. Ég hefði viljað fá mínar mínútur sem ég fékk ekki, en svona er þetta og getur komið fyrir. Ég kom mér þaðan í burtu og það fljótt og er mjög ánægður með það. Ég er kominn á miklu betri stað,“ sagði Arnór Ingvi.

Arnór Ingvi var sænskur meistari með Norrköping árið 2015, en sumarið 2016 fór hann til Austurríkis. Á sínu fyrsta ári hjá Rapid Vín gekk mikið á þar sem voru tíð þjálfaraskipti og vesen innan herbúða félagsins.

Arnór Ingvi Traustason í búningi Rapid Vín.
Arnór Ingvi Traustason í búningi Rapid Vín. AFP

Vildi ekki fara aftur til Vínar

„Þetta var allt mjög spes. Hjá Rapid var ég með fjóra þjálfara og allt í kaos, svo á endanum reyndist þetta ekki besta tímasetningin til þess að fara þangað þó allt hafi litið vel út fyrst. Þeir vissu það að ég vildi ekki koma til baka, um leið og ég vissi að Malmö hefði áhuga þá lét ég vita að ég væri áhugasamur líka, og þá gekk þetta fljótt fyrir sig. Það var ekkert vesen frá þeim [Rapid Vín] og ég er mjög þakklátur fyrir það,“ sagði Arnór Ingvi.

Það má því segja að ýmislegt hafi gengið á hjá Arnóri eftir að hann stal senunni á EM í Frakklandi í fyrra þar sem hann meðal annars skoraði sigurmark Íslands gegn Austurríki í riðlakeppninni.

„Síðasta eina og hálfa árið hefur verið mjög lærdómsríkt. Ég hef lært ýmislegt sem ég bjóst ekki við að gera og vonaðist kannski ekki eftir að þurfa að læra, en ég er samt sem áður ánægður að hafa orðið fyrir svona miklu mótlæti enda lærði ég helling af því. Ég sé ekki eftir neinu heldur horfi bara fram á veginn, ég er leikmaður Malmö í dag og hlakka til að sýna hvað ég get hér,“ sagði Arnór Ingvi.

Arnór Ingvi Traustason með treyju AEK Aþenu.
Arnór Ingvi Traustason með treyju AEK Aþenu. Ljósmynd/AEK

Malmö er tíu sinnum stærra félag

En hver er helsti munurinn á Norrköping, þar sem Arnór varð meistari árið 2015, og Malmö sem er eitt stærsta félag á Norðurlöndunum?

„Norrköping er félag sem á sína sögu og er stórt, en þegar maður setur það saman við Malmö þá er Malmö tíu sinnum stærri klúbbur. Malmö er að berjast um titilinn á hverju ári, það er mikil pressa hérna og menn vilja taka þátt í Evrópukeppni. Svo það er mikill munur hvað það varðar. Ég hef átt gott spjall við þjálfarann, hann veit hvað ég get og hann útskýrði fyrir mér að hann vill sjá mig í sínu liði,“ sagði Arnór.

Eftir mótlæti síðustu 18 mánuðina, horfir Arnór þá á þetta sem nokkurs konar endurræsingu á sínum atvinnumannaferli?

„Já og nei. Hver og einn leikmaður sem á möguleika á því að fara á HM hugsar um hvaða skref hann tekur og því færri feilspor því betra. Ég held ég hafi verið að taka rétt skref núna og vona að ég eigni mér pláss á HM,“ sagði Arnór og tók undir að það var algjört lykilatriði að skipta um félag núna einmitt vegna HM næsta sumar.

Já algjörlega, annars hefði ég verið algjörlega í skítnum.“

Arnór Ingvi Traustason fagnar á EM.
Arnór Ingvi Traustason fagnar á EM. AFP

Komumst upp úr riðlinum á HM

Og talandi um HM þá var ekki hægt að sleppa því að spyrja Arnór hvernig honum litist á mótherja Íslands; Argentínu, Króatíu og Nígeríu.

„Ég var búinn að segja að við myndum lenda í riðli með Argentínu, en þetta er erfiður riðill eins og þeir allir. Þetta verður bara fjör og ég hlakka bara til. Það hefði ekki skipt neinu máli hvaða lið við fengjum, þó maður hefði kannski viljað fá eitthvað annað en Króatíu. En svona er þetta og ég held við komumst alveg upp úr þessum riðli,“ sagði Arnór Ingvi Traustason við mbl.is.

mbl.is