Líkar íslensk tryllitæki

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar með íslenska landsliðinu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir fagnar með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert

„Þetta var bara mjög spennandi tilboð sem fól í sér að spila í einni alsterkustu deild heims. Það var erfitt að segja nei við þessu,“ segir Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, sem samið hefur við bandaríska úrvalsdeildarfélagið Utah Royals til eins árs, með möguleika á árs framlengingu.

Gunnhildur Yrsa heldur til Bandaríkjanna í lok janúar til undirbúnings fyrir komandi leiktíð. Hún kveðst hafa rætt við þrjú af þeim tíu félögum sem tefla fram liði í bandarísku deildinni, en valið hafi á endanum verið auðvelt. Lið Utah Royals kemur í stað Kansas City og er í raun nýliði í deildinni, en byggir á leikmannahópnum sem Kansas hafði. Liðið spilar heimaleiki sína á Rio Tinto-leikvanginum í bænum Sandy í Utah, þeim sama og MLS-lið Real Salt Lake leikur á og tekur rúmlega 20 þúsund manns í sæti.

Englendingurinn Laura Harvey var fengin til að stýra nýliðunum, en hún var áður þjálfari Seattle Reign í fjögur ár og var valin þjálfari ársins í bandarísku deildinni árin 2014 og 2015:

„Hún er stór ástæða þess að ég valdi þetta lið. Hún vill að lið sitt spili fótbolta sem er svipaður þeim sem íslenska landsliðið spilar. Ég hef aðeins heyrt góða hluti um hana og að leikmenn hafi bætt sig svakalega mikið hjá henni. Hún fílar leikmenn eins og Íslendingar eru oft, svona „tryllitæki“. Hún er að byggja liðið og leikmannahópinn upp með sínu nefi,“ segir Gunnhildur.

Ítarlega er rætt við Gunnhildi í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert